Menu

head1

Í listmeðferð skapar skjólstæðingurinn list í tengslum við listmeðferðarfræðing. Ekki er þörf á þekkingu né færni í listum, heldur er listsköpunin sjálfsprottin og frjáls. Sköpunarferlið og meðferðarsambandið eru mikilvægir þættir meðferðarinnar. Meðferðin stuðlar að auknum styrk, betra jafnvægi,betri sjálfsþekkingu og aukinni sköpunargáfu.

Myndræn tjáning getur oft betur en orð tjáð það flóknasta og viðkvæmasta í mannsálinni. Í sumum tilvikum talar einstaklingurinn um listsköpun sína. Í samtölum um listina skapast tenging á milli myndrænnrar hugsunar án orða og þess að tjá myndefnið með orðum. Við tengingu á milli mynda og orða verður viðfangsefnið oft skýrara og betur skilgreint, sem eykur möguleika á að finna úrlausnir.

Listmeðferðarfræðingurinn leitast við að sýna skjólstæðingnum skilning og hjálpa honum/henni að sjá vanda sinn í samhengi við aðra þætti í umhverfinu, án þess að dæma á nokkurn hátt, sem að stuðlar að sátt einstaklingsins við sjálfan sig og betra sjálfstrausti.

Listmeðferð gagnast vel fyrir flesta, en þar sem mikill hluti tjáningarinnar er án orða, hentar meðferðin sérstaklega vel fyrir börn og fólk sem af einhverjum ástæðum hefur skertan málþroska sem og alla þá sem vilja vinna með og þroska sjálfan sig í gegnum listræna tjáningu sem oft er án orða.

Umgjörðin er mikilvægur þáttur meðferðarinnar. Hluti hennar er að listmeðferðar-fræðingurinn er bundinn trúnaði og þagnarskyldu og að einstaklingurinn sækir reglulega listmeðferð yfir ákveðið tímabil á stað þar sem ríkir næði. Þannig er einstaklingnum veitt öruggt rými og tími sem er grundvöllur fyrir úrvinnslu reynslu og tilfinninga.

FaLang translation system by Faboba